Lífið færir okkur margar stórar stundir og það að stofna til fjölskyldu er ein þeirra. Á þeim tímamótum þurfum við öll á einn eða annan hátt að nýta okkur þjónustu hins opinbera. Sambúð, hjónaband, meðganga, fæðing, leikskólar, grunnskólar, framhaldsskólar – allt á þetta sinn stað og að sama skapi fylgja þessu öllu samskipti við ólíkar stofnanir sem hafa ólíku hlutverki að gegna.
Á næstu árum mun stjórnsýslan öll og sú stafræna þjónusta sem hún veitir taka umfangsmiklum breytingum sem allar miða að því að þú getir nálgast hana á einfaldan og hraðvirkan hátt á einum stað, í gegnum Ísland.is. Í sumum tilvikum hafa stóru skrefin þegar verið tekin en í öðrum þarf enn að prenta út eyðublöð og flakka á milli staða til að koma þeim til skila. Því ætlum við að breyta.
Verðandi foreldrar munu hér fá hnitmiðaðar og skýrar upplýsingar um réttindi og þjónustu á meðgöngu og eftir fæðingu. Á slíkum tímamótum er spennan mikil og fæst okkar sérstaklega áhugasöm um að eyða dýrmætum tíma í að flakka á milli vefsíðna til að finna út hver næstu skref eru þegar barnið er komið í heiminn. Þess mun ekki þurfa af því að Ísland.is lætur þig vita af ungbarnaverndinni, tímabókunum hjá heilbrigðisstofnun og að sjálfsögðu minna þig á þegar tímafrestur fyrir mikilvæg atriði eins og nafngjöf er að renna út.
Og eftir því sem lífi lítillar – eða stórrar – fjölskyldu vindur fram verður Ísland.is eini staðurinn sem þarf að leita til þegar fjölskyldan þarf á þjónustu stofnana ríkisins að halda: aðstoð sérfræðinga, vegabréfin að renna út, þegar börnin fara í skóla og þegar foreldrarnir fara að huga að starfslokum.
Ísland.is kemur til með að gefa þér þær upplýsingar sem þú þarft þegar þú þarft þær.